![]() |
![]() |
…
Ráð fyrir hestaeigendur á flugeldastund:
Stutti og fljótlegi listinn
Ásamt lista með hræðslumerkjum
Hestar geta orðið mjög hræddir við óútskýrða og skyndilega hvelli sem fylgja flugeldum. Þessi dýr eru veiðibráð í náttúrunni, og eru forrituð til að bregðast við öllum óvenjulegu og óþægilegu áreiti með því að hræðast og flýja. Þau viðbrögð eru þá snögg og sjálfkrafa og ekki byggð á umhugsun, enda er viðbrögðunum stýrt í ósjálfráða taugakerfinu (sympathetic autonomic nervous system) sem liggur að hluta meðfram mænunni sem tryggir mjög snögg viðbrögð, en er ekki stýrt í heilanum þar sem hugsun fer fram.
Kringum áramótin koma margir hestaeigendur hestunum sínum í burtu frá þéttbýli, þar sem flugeldum er mest skotið upp. Ef hestarnir eru hinsvegar í húsi í þéttbýli má fara eftir þessum ráðum:
Hvað er gott að gera til að flugeldastundin verði bærileg fyrir hesta
- Hefðbundnar aðstæður eru öruggar aðstæður í augum dýranna, og því er best að láta tímann þegar flugeldum er skotið á loft vera sem hefðbundnastan, eftir því sem hægt er.
- Hver hestur hefur þó sín eigin persónueinkenni. Þú þekkir þinn hest eða hesta, og veist hve mikil þörf er á viðbúnaði.
- Best fer á því að hafa hesta inni í húsi yfir áramótin. Það er mjög gott að spila rólega, taktfasta tónlist til að deyfa hljóðin sem berast utan frá. Klassísk tónlist og barrokk tónlist hafa gjarnan góð áhrif á dýr.
- Sjáðu til þess að byrgt sé fyrir glugga þannig að blossar frá flugeldum sjáist ekki. Það er nauðsynlegt að hafa ljósin kveikt inni í húsinu. Þá sjá hestarnir að ekkert er á kreiki sem er sýnilegt, þó að ómurinn af óþægilegum hljóðum berist inn.
- Sjáðu til þess að gott aðgengi sé að drykkjarvatni og heyi. Það er betra að hestarnir séu vel saddir þegar lætin byrja.
- Sjáðu til að allar útgönguleiðir sem hestarnir gætu notað séu tryggilega lokaðar. Hreinsaðu í burtu allt sem gæti valdið meiðslum, ef um slíkt er að ræða, eins og bönd og reipi, og naglar, skrúfur og járn sem kannski skaga út í básnum og geta meitt hestana.
- Sýndu yfirvegun og rósemd. Hestarnir munu sjá það og taka mark á því. Ef þú ert í hesthúsinu meðan á látunum stendur, sjáðu til þess að þú sért á slíkum stað inni að hesturinn eða hestarnir troði þig ekki undir ef þeir myndu fælast.
- Dýralæknir gæti haft skoðun á því hvort róandi lyf séu æskileg, en skiptar skoðanir eru á notkun þeirra. Eins er hugsanlega hægt að ná í ýmis náttúruleg róandi fæðubótaefni byggð á plöntum, þ.e. „herbal sedatives“. Ef hestarnir hafa fengið róandi lyf mega þeir ekki hafa aðgang að heyi eða mat fyrr en eftir að áhrif róandi lyfsins hafa fjarað út.
- Það er ekki sérlega algengt að útigangshross séu nærri stöðum þar sem mjög miklu er skotið upp af flugeldum, en þó geta eldglæringar frá skoteldum verið sýnilegar og hafa oft borist fregnir af hestum sem fælast um áramót. Í tilvikum þar sem hross eru utandyra hljóta ráðleggingar að fara eftir aðstæðum. Lögð er áhersla á að stundin sé sem hefðbundnust, og aðundankomuleiðir fyrir hestana séu lokaðar, ásamt því að ekki séu hlutir inni á svæðinu sem geti skaðað hesta sem taka á rás. Ef snjóalög eru mikil er erfiðara að loka hólfum af. Hestaeigendur verða að bregðast við sem best þeir geta, og fer það eftir aðstæðum á hverjum stað.
- Stundum er fólk að sprengja eina og eina bombu, nokkra daga fyrir og eftir sjálf áramótin. Hafðu þetta í huga ef þú ætlar í útreiðartúr, hvort að leiðin sé ekki örugglega greiðm, eða hvaða reiðleið sé öruggust. Oftast er það reiðleið sem liggur í átt frá byggð, frekar en í átt að byggð.
Þetta eru stuttar leiðbeiningar um hvað er best að gera þegar þessi „skelfilegi“ atburður gengur yfir. Til langs tíma er forvörn best: Að venja hestana á flugeldahljóð (sem og önnur hljóð, það kallast desensitization á fagmáli) svo að þeir verði ekki hrætt við þessi hljóð, enda séu þau orðin hversdagsleg og skaðlaus í þess huga. Vefurinn Flugeldahljod.com býður ókeypis hljóðskrár og leiðbeiningar til að gera það. Einnig er í boði hljómdiskur sérvalinn fyrir hesta með viðbótar hljóðum. Ef aðeins örfáir dagar eru til áramóta og ef þú hefur ekki gert neitt af slíku, getur verið að tíminn sé of stuttur til að ná árangri. Þá þarftu að fara eftir ráðunum hér á undan.
Algeng merki um hræðslu hjá hestum:
Fælist og tekur á rás
Eys eða prjónar
Líkamsstelling stífari
Stappar niður hófunum af hörku
Taglið niðri á milli fótanna, eða, að taglinu er haldið upp og aftur
Titrar
Höfuð reist upp og aftur
Galopin augu, hvítan sést í augunum
Svitnar
Frísar gegnum galopnar nasir
Snoppan stífari, með efri vör haldið aðeins út yfir neðri vör
Eyru snúa aftur, eða að eyrum er beint stíft í átt að hljóðinu
Hlustar ekki á eða veitir ekki athygli sem sagt er við hann
(Þessar ráðleggingar eru byggðar á upplýsingum sem fengnar eru úr fagbókum og af vefsíðum hér og þar.)