…
Ráð fyrir hundaeigendur á flugeldastund:
Stutti og fljótlegi listinn
Ásamt lista með hræðslumerkjum
Þó að hundurinn (Canis lupus familiaris) sé rándýr í grunninn, en forfaðir hundsins gráúlfurinn (Canis lupus lupus) er þróaður í náttúrunni til að eltast við veiðibráð, þá getur hundurinn sjálfur orðið veiðibráð, eða orðið fórnarlamb ýmiskonar hættu sem getur leynst í náttúrunni. Hundar eru þess vegna oft langt frá því að vera óttalausar skepnur, eins og margir hundaeigendur vita. Til dæmis eru hundar eins og önnur dýr oft dauðhræddir við þrumur og eldingar. Í gegnum milljónir ára hefur það orðið innbyggð þekking að eldingar geta drepið beint þar sem þær ná til jarðar, og eldingum geta líka fylgt eldar í kjarri eða þurru grasi. Það má vel gera ráð fyrir að flugeldar, með sínum hvellum og drunum ásamt ljósblossum á himni, veki upp genetískt forritaða hræðslu við eldingar.
Ef þú heldur að hundurinn sé ekki orðinn vanur flugeldahljóðum þegar lætin ganga yfir, eða þú hefur ekki náð að gera neitt til að venja hundinn á hljóðin, þá eru hér leiðbeiningar um hvað er best að gera til að stundin verði bærilegri fyrir hundinn á meðan hin hugsanlega „skelfilega“ stund gengur yfir, á meðan við mennirnir skemmtum okkur við að kveikja í skoteldum.
Hvað er gott að gera til að flugeldastundin verði bærileg fyrir hunda
- Haltu hundinum /hundunum innandyra á stað þar sem honum líður vel og hann finnur til öryggis, eins langt frá látunum og hægt er, til dæmis í aflokuðu herbergi. Ágætt er að byrgt sé fyrir glugga svo ekki sjáist út. Sjáðu til þess að gott aðgengi sé að drykkjarvatni og kannski smá mat. Gott er að hafa nýtt nagbein og uppáhalds leikfang á staðnum, og teppi eða dýnu sem hann þekkir.
- Ágætt er að útbúa þennan stað með nokkurra daga fyrirvara, svon hundurinn venjist honum.
- Þrátt fyrir að þú hafir útbúið stað fyrir hann að vera á getur verið að hann finni sér sinn eigin stað. Leyfðu honum þá að vera þar.
- Haltu þig nærri ef það er nauðsynlegt. Ekki læsa hundinn inni í herbregi. Það er mjög gott að spila rólega, taktfasta tónlist, það hátt að tónlistin nái að deyfa hljóðin sem berast utan frá.
- Talaðu við hundinn með róandi röddu, leiktu við hann ef það virkar til að róa hann, og ekki sýna að þú sýnir honum vorkunn, talandi slíkri röddu og klappandi með vorkunn í fasi. Sýndu yfirvegun eins og ekkert sérstakt sé að gerast. Hundurinn mun sjá það og taka mark á því. Ekki skamma hundinn fyrir að sýna hræðslumerki, þar sem „hættan“ er raunveruleg í hans huga.
- Sjáðu til þess að hundurinn komist ekki út úr húsi meðan að lætin standa yfir. Haltu hundinum fjarri stórum gluggum og glerhurðum, (sérstaklega ef þú átt stóran hund). Ef þú ferð með hann utandyra, sjáðu til að hann sé tryggilega í taumi, vel merktur og örmerktur.
- Taktu hundinn í góða gönguferð og láttu hann gera þarfir sínar fyrir flugeldaatburðinn. Gefðu honum þugna, slæfandi, kvöldmat sem er m.a. með fullt af kolvetnum (til dæmis kartöflum, hrísgrjónum eða pasta. Þannig verður hann þreyttur og dasaður þegar lætin byrja.
- Það gæti verið góð hugmynd að nota DAP ferómón (dog appeasing pheromones) sem gefa hundinum öryggistilfinningu. Spurðu dýralækninn um hvort það væri gott fyrir þinn hund. Dýralæknirinn gæti líka haft skoðun á því hvort róandi lyf séu æskileg, en skiptar skoðanir eru á notkun þeirra.
- Næstu daga á eftir þarftu líka að vera á varðbergi þegar þú ferð með hundinn út að ganga. Ekki leyfa honum að grípa útbrunna skotelda og blys í kjaftinn. Í þeim eru ýmis brunnin efnasambönd, málmsölt og slíkt sem geta verið mjög eitruð fyrir hunda.
Þetta eru stuttar leiðbeiningar um hvað er best að gera þegar þessi „skelfilegi“ atburður gengur yfir. Til langs tíma er forvörn best: Að venja hundinn á flugeldahljóð svo að hundurinn verði ekki hræddur við þessi hljóð, enda séu þau orðin hversdagsleg og skaðlaus í hans huga. Vefurinn Flugeldahljod.com býður ókeypis hljóðskrár og leiðbeiningar til að gera það. Ef aðeins örfáir dagar eru til áramóta og ef þú hefur ekki gert neitt af slíku, getur verið að tíminn sé of stuttur til að ná árangri. Þá þarftu að fara eftir ráðunum hér á undan.
Algeng merki um hræðslu hjá hundum:
Óvirk viðbrögð
Eyru leggjast aftur
Skottið sett á milli afturfóta
Mikill skjálfti
Ýlfrar og lítill í sér
Slefar mikið
Missir matarlyst
Svarar ekki kalli
Virkari viðbrögð
Geltir mikið og gólar
Reynir að flýja hljóðin og ljósin með því að fela sig t.d. undir sófa eða rúmi, inni í fjarlægu herbergi eða skríður inn í skáp
Reynir að komast út til að flýja
Mígur eða skítur þar sem hann er staddur
Tryllist. Veður um og krafsar, bítur og nagar húsgögn og húsmuni
Sker sig, særir fótaþófa og munn, brýtur eigin tennur
Það hefur gerst erlendis að stórir hundar, trylltir af hræðslu, stökkva út í gegnum stóra glerrúðu sem þeir mölbrjóta og særa sjálfa sig um leið sem róar þá ekki niður.
Stundum hlaupa hundar ærir af hræðslu út á vegi og hraðbrautir með mikilli bílaumferð, með vondum afleiðingum.
Hundar hafa tínst og ekki fundist aftur, en það á við um stóru löndin.
(Þessar ráðleggingar eru byggðar á upplýsingum sem fengnar eru úr fagbókum og af vefsíðum hér og þar.)